Á hverjum degi ganga börn og ungmenni út um dyrnar heima hjá sér með tungumál í hjartanu, á heilanum og í farteskinu. Tungumál sem geyma tilfinningar, minningar og visku um allt milli himins og jarðar. Hvernig nýtum við þessa auðlind í íslensku skóla- og frístundastarfi? Í þessu námsefni eru verkefni og kveikjur sem nýtast í skóla- og frístundastarfi.
Tungumálaauðlind nemendanna felur í sér ríkidæmi bæði fyrir einstaklingana sjálfa og fyrir samfélagið eins og segir í aðalnámskrá grunnskóla, kafla 7.14:
Tungumál eru auðlind og að viðhalda virku fjöltyngi er hagsmunamál fyrir fjöltyngd börn og samfélagið í heild. Fjöltyngi er lifandi og flókið félagslegt og persónulegt ferli sem snertir menningar-, félags-, vitsmuna- og námslega þætti tungumála. Tungumálaforði einstaklings er samofin heild og felur í sér alla færni í öllum tungumálum einstaklings.
Það er sameiginlegt verkefni allra sem vinna með börnum að finna leiðir til að byggja á auðlindum þeirra; tungumálum, fyrri reynslu og styrkleikum. Með því að virkja tungumálaforða fjöltyngdra nemenda má styrkja sjálfsmynd þeirra og á sama tíma stuðla að áhuga, forvitni og aukinni tungumálakunnáttu meðal allra nemenda.
Þetta á sér góðan samhljóm við eftirfarandi tilvísanir úr menntastefnu stjórnvalda:
Velgengni byggir á vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun, félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til að takast á við hnattrænar áskoranir.
Ísland er fjölmenningarsamfélag sem nýtir þá auðlind sem felst í fjölmenningarlegu skólastarfi, fagnar margbreytileika nemenda og nýtir til að efla samfélagið.
Tilgangurinn með verkefninu er m.a. að efla námsmenningu sem stuðlar að því að öll börn átti sig á mikilvægi tungumála fyrir samfélagið og sjálfsmynd og tilfinningalíf hvers og eins. Tilefni kortlagningar á tungumálaforðanum í skólum landsins er Alþjóðlegur dagur móðurmálsins sem haldinn er hátíðlegur 21. febrúar ár hvert. Tungumálaforði barna og ungmenna á Íslandi var fyrst kortlagður árið 2014 og aftur árið 2021 og því í þriðja skipti árið 2025.