Hægt er að fara margvíslegar leiðir til að vinna með tungumálaauð í námi og kennslu. Hér á eftir er fróðleikur og gagnlegar upplýsingar sem kennarar geta miðlað áfram til nemenda áður en farið er í verkefnavinnu. Þær geta verið kveikjur og innblástur fyrir vinnuna sem framundan er. Því næst koma tillögur að verkefnum. Sum þeirra eru tengd tungumálakortinu en önnur ekki.
Töluð eru um það bil 7000 tungumál í heiminum í dag. Tungumálin eru öll hluti af ákveðinni tungumálaætt og eru þannig skyld hvert öðru. Þess vegna eru sum tungumál lík. Það getur verið auðveldara fyrir okkur að læra og skilja þau tungumál sem eru í sömu ætt og tungumál sem við þekkjum vel.
Íslenska tilheyrir germönsku tungumálaættinni sem skiptist í norðurgermönsk mál, þ.e. danska, norska, sænska, íslenska og færeyska og vesturgermönsk mál, s.s. þýska, hollenska, frísneska, enska og jiddíska.
Á vef Evrópsku tungumálamiðstöðvarinnar má finna ýmislegt gagnlegt efni tengt tungumálum:
Einnig má finna nánari upplýsingar um skyldleika evrópskra tungumála og annan fróðleik hér:
Þegar tungumál hverfa
Talið er að á tveggja vikna fresti hverfi tungumál einhvers staðar í heiminum (Vefur Sameinuðu Þjóðanna). Á hverju tungumáli er til þekking sem er ómetanleg og ef tungumál er í útrýmingarhættu þá er þekkingin það líka.
Að varðveita tungumál einstaklings er jafn mikilvægt og að varðveita tungumál þjóða og þar með öll tungumál í heiminum. Hver einstaklingur býr yfir reynslu og þekkingu sem getur haft jákvæð áhrif á samfélagið, jafnvel eitthvað sem getur haft afgerandi þýðingu fyrir okkur öll.
Það mætti segja að því fleiri tungumál sem einstaklingur talar því sterkari dreifing getur orðið á þekkingunni til ólíkra hópa.
Tungumál á Íslandi
Íslenska er sameiginlegt tungumál okkar á Íslandi. Hún tengir okkur og er þess vegna mikilvæg í samskiptum fyrir öll sem búa á Íslandi. En eins og tungumálakortið sýnir þá erum við sem samfélag líka rík af öðrum tungumálum.
Þegar fólk flytur til Íslands frá öðru landi, hvort sem það er upprunaland þess eða land sem það hefur átt heima í af öðrum ástæðum, kemur það oftast með tungumál með sér í farangrinum. Það tungumál getur verið útlenska fyrir Íslending en móðurmál einhvers annars.
Á Íslandi eru töluð fleiri en 100 tungumál sem sýnir að hér á landi búa margir fjöltyngdir einstaklingar.
Að minnsta kosti helmingur heimsbúa eru tví- eða fjöltyngd, þ.e.a.s. tala tvö eða fleiri tungumál. Margir heimsfrægir einstaklingar tala fleiri en eitt tungumál.