Fróðleikur

Hægt er að fara margvíslegar leiðir til að vinna með tungumálaauð í námi og kennslu.  Hér á eftir er fróðleikur og gagnlegar upplýsingar sem kennarar geta miðlað áfram til nemenda áður en farið er í verkefnavinnu. Þær geta verið kveikjur og innblástur fyrir vinnuna sem framundan er. Því næst koma tillögur að verkefnum. Sum þeirra eru tengd tungumálakortinu en önnur ekki.

Töluð eru um það bil 7000 tungumál í heiminum í dag. Tungumálin eru öll hluti af ákveðinni tungumálaætt og eru þannig skyld hvert öðru. Þess vegna eru sum tungumál lík. Það getur verið auðveldara fyrir okkur að læra og skilja þau tungumál sem eru í sömu ætt og tungumál sem við þekkjum vel.

Íslenska tilheyrir germönsku tungumálaættinni sem skiptist í norðurgermönsk mál, þ.e. danska, norska, sænska, íslenska og færeyska og vesturgermönsk mál, s.s. þýska, hollenska, frísneska, enska og jiddíska.

Á vef Evrópsku tungumálamiðstöðvarinnar má finna ýmislegt gagnlegt efni tengt tungumálum:

Þegar tungumál hverfa

Talið er að á tveggja vikna fresti hverfi tungumál einhvers staðar í heiminum (Vefur Sameinuðu Þjóðanna). Á hverju tungumáli er til þekking sem er ómetanleg og ef tungumál er í útrýmingarhættu þá er þekkingin það líka.

Að varðveita tungumál einstaklings er jafn mikilvægt og að varðveita tungumál þjóða og þar með öll tungumál í heiminum. Hver einstaklingur býr yfir reynslu og þekkingu sem getur haft jákvæð áhrif á samfélagið, jafnvel eitthvað sem getur haft afgerandi þýðingu fyrir okkur öll.

Það mætti segja að því fleiri tungumál sem einstaklingur talar því sterkari dreifing getur orðið á þekkingunni til ólíkra hópa.

Tungumál á Íslandi

Íslenska er sameiginlegt tungumál okkar á Íslandi. Hún tengir okkur og er þess vegna mikilvæg í samskiptum fyrir öll sem búa á Íslandi. En eins og tungumálakortið sýnir þá erum við sem samfélag líka rík af öðrum tungumálum.

Þegar fólk flytur til Íslands frá öðru landi, hvort sem það er upprunaland þess eða land sem það hefur átt heima í af öðrum ástæðum, kemur það oftast með tungumál með sér í farangrinum. Það tungumál getur verið útlenska fyrir Íslending en móðurmál einhvers annars.

Á Íslandi eru töluð fleiri en 100 tungumál sem sýnir að hér á landi búa margir fjöltyngdir einstaklingar.

Að minnsta kosti helmingur heimsbúa eru tví- eða fjöltyngd, þ.e.a.s. tala tvö eða fleiri tungumál. Margir heimsfrægir einstaklingar tala fleiri en eitt tungumál.

Dæmi um frægt fólk sem tala fjölbreytt tungumál

Staðreyndir um tungumál sem töluð eru á Íslandi

Áhugavert er að skoða með nemendum þau tungumál sem töluð eru á Íslandi en ekki er víst að allir þekki mikið til þeirra.
Hér eru dæmi um nokkur slík:

Amharíska

Amharíska er semískt tungumál sem er opinbert mál í Eþíópíu ásamt oromo. Sautján milljónir tala það sem fyrsta mál en fimm milljónir sem annað mál og þá aðallega í norðurhluta Nígeríu og suðurhluta Níger.

Hása:

Hása er afró-asískt tungumál sem rúmlega 30 milljónir tala sem fyrsta mál. Hása er talað af fjölmörgum sem milliþjóðamál, sérstaklega meðal kaupmanna, múslimskra fræðimanna og innflytjenda í stórborgum í Vestur-Afríku.

Ga:

Ga telst til kvámála sem 600.000 manns tala. Það er talað í strandhéruðum í Gana, í höfuðborginni Accra og á nálægum svæðum af um 3% landsmanna.

Malalajam:

Malalajam er dravídamál og er eitt af 22 opinberum þjóðmálum Indlands. Um 36 milljónir tala tungumálið. Það er opinbert mál í Keralaríki á suðvesturströnd Indlands og tala nær allir íbúarnir málið, sömu sögu er að segja á Lakshadweepa-eyjum undan Keralsteönd í Arabíska hafinu.

Bengalska/bengalí:

230 milljónir tala bengölsku. Tungumálið er ríkjandi mál í Vestur-Bengal á Indlandi og í nágrannaríkinu Bangladess. Það er eitt af þeim tungumálum sem flestir jarðarbúar tala, fleiri en þeir sem tala frönsku og þýsku en færri en tala Hindí. Stærsta bengölskumælandi samfélagið utan Indlands og Bangladess er á Bretlandi en þar tala 400.000 manns tungumálið.

Úrdú:

Úrdú er talað af 60,5 milljónum á Indlandi, í Pakístan og að nokkru marki í Bangladess og Nepal. Málið er opinbert mál í Pakístan en þó tala færri en 8% landsmanna það sem fyrsta mál. Úrdú er eitt af 22 opinberum málum á Indlandi.

Fleiri tungumál sem töluð eru hér á landi eru t.d. Farsi, Kúrdíska, Pashto og mörg fleiri. Lýsingar á heimsins tungumálum má finna í bókinni Eitt þúsund tungumál og á netinu.

Velgjörðarsendiherra tungumála UNESCO er Íslendingur

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur síðan 1999 verið velgjörðarsendiherra tungumála Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu. Vigdís hefur sagt margt fallegt og gagnlegt um tungumál í gegnum tíðina:

Myndband af Youtube-síðu Íslensku UNESCO-nefndarinnar

Veröld – hús Vigdísar

Árið 2017 var Veröld – hús Vigdísar opnað á vegum Háskóla Íslands og UNESCO og er húsið tileinkað tungumálum heimsins og skilningi milli menningarheima.

Í Veröld er að finna sýninguna Mál í mótun sem skemmtilegt er að heimsækja með nemendum en þar eru tungumál heimsins og staðreyndir um þau kynnt á myndrænan hátt og hægt er að fá leiðsögn á staðnum.

Skrásetning á tungumálum í skólum

Öll tungumál eru annað hvort móðurmál, fyrsta mál, annað mál eða erlent mál hjá einhverjum. Þau eru öll jafn mikilvæg og dýrmæt og því þarf að koma til skila í öllu skóla- og frístundastarfi.

Til að stuðla að því að börn og ungmenni með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn geti speglað sig í námsumhverfinu ætti að hafa þau tungumál sem nemendur tala eða tengjast sýnileg í umhverfi skóla- og frístundastarfsins.

Dæmi um það hvernig hægt er að vekja til umhugsunar mikilvægi þess að virkja þann tungumálaforða sem er í námsumhverfinu er að telja og skrá þau tungumál sem nemendur tala. Vinna með nemendum sem snertir fjölbreytt tungumál eykur líkur á samvinnu á milli heimilis og skóla þar sem nauðsynlegt er að leita upplýsinga hjá forsjáraðilum í ferlinu.

Áhersla er lögð á að sú þekking og reynsla sem fylgir fjölbreyttum tungumálum sé ávinningur fyrir allt nærumhverfi skólans.

Tungumál og menningarhæfni

Ekki er hægt að tala um tungumál án þess að nefna mikilvægi þess að við skiljum hvert annað og berum virðingu hvert fyrir öðru. Sameiginlegur skilningur stuðlar að friði, vináttu og samkennd milli fólks um allan heim og eykur menningarhæfni. Þessa hæfni getum við meðal annars tileinkað okkur með því að kunna fleiri tungumál en okkar eigið og þar með geta átt í samskiptum þvert á ólíka hópa. Hér er viðeigandi að vitna aftur í Vigdísi Finnbogadóttur, sem hefur sagt:

Viðtal í Icelandictimes

Við getum líka styrkt menningarhæfni með því að hlusta á fólk og vera opin gagnvart því þó svo að það komi úr ólíkum aðstæðum. Í leiðarvísinum Hjartans mál” kemur fram að vinna með fjölbreytt tungumál í skóla- og frístundastarfi

Hjartans mál, leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla og frístundastarf, bls. 12

Enn fremur segir í sama leiðarvísi:

Hjartans mál, leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla og frístundastarf, bls. 5

Krosstynging (e. translanguaging)

Þegar notast er við þekkingu á öllum þeim tungumálum sem nemendur búa yfir í námsferli er um að ræða svokallaða krosstyngingu” (e. translanguaging). Krosstynging er nálgun í kennslu þar sem fjölbreytt tungumál nemenda eru virt og nýtt í samskiptum. T.d. gæti nemandi tekið á móti fyrirmælum kennara á einu tungumáli en glósað, lesið sér til um efnið eða spjallað við samnemenda eða kennara á öðru tungumáli. Eins og kemur fram í skilgreiningu á krosstyngingu í leiðarvísinum Hjartans mál þá býður nálgunin upp á að nemandi noti til skiptis ólík tungumál við ólíkar aðstæður innan sama námsrýmis. (García, O. (2009). Bilingual education in the 21st century: A global perspective. Wiley-Blackwell.)

Í kennslunálguninni eru öll tungumálin gerð sýnileg með markvissum hætti.

Námsefnið er í samræmi við: