Töfrakista tungumálanna

Hér má sjá hvaða tungumál eru töluð í þeim skólum sem tóku þátt í að kortleggja tungumálaauðinn árið 2025.

Tungumálakortið býður upp á ýmis tækifæri til að vinna með tungumálaauð barna og ungmenna og með því hafa verið útbúin verkefni og kennsluleiðbeiningar sem bjóða upp á fjölbreytta og hagnýta nálgun. Í þeim er m.a. skoðað hvernig forvitnast má um tungumál, hvar þau eru töluð og skyldleika þeirra. Lögð er áhersla á fjöltyngi sem styrkleika og um leið mikilvægi þess að bera virðingu fyrir fjölbreyttum tungumála- og menningarbakgrunni hvers og eins.

Markmiðið með verkefnunum er að stuðla að fjölbreyttum og skapandi starfs- og kennsluháttum sem virkja reynsluheim nemendanna sjálfra í gegnum samskipti og samtöl. Þannig er stefnt að því að þau öðlist aukna tungumálavitund sem er mikilvæg í nútímasamfélagi. Því fleiri tungumál, því fleiri tækifæri.

Verkefni

Hér á eftir eru fjölbreytt verkefni fyrir nemendur og er hægt að nota þau öll eða velja stök verkefni.

Hugmyndafræði verkefnanna byggir meðal annars á leiðarvísinum Hjartans mál þar sem lögð er áhersla á að styðja við virkt fjöltyngi barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi:

Skóla- og frístundastarf hefur það hlutverk að styðja börn og ungmenni við að ná tökum á ríkulegri íslensku. Auk þess ber þeim stofnunum að virða tungumálaauðlindir fjöltyngdra nemenda, þ.e.a.s. tungumálafærni þeirra á öllum tungumálum þeirra og fjölskyldna þeirra, og að skapa hvetjandi umhverfi og samstarf með það að markmiði að styrkja allan tungumálaforða barna. Enn fremur þarf að hvetja foreldra fjöltyngdra barna til að setja sér meðvitaða tungumálastefnu í fjölskyldunni, með það að markmiði að bjóða börnum upp á ríkt tungumála- og læsisumhverfi (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2020).

Fleiri verkefni væntanleg