Töfrakista tungumálanna
Námsefnið inniheldur tungumálakort og verkefni til að virkja fjölbreytt tungumál í vinnu með börnum og ungmennum. Með því að stækka Íslandskortið er hægt að leita eftir tungumálum og sjá í hvaða leik-, grunn- og framhaldsskólum þau eru töluð.
Markmiðið með verkefnunum er að stuðla að fjölbreyttum og skapandi starfs- og kennsluháttum sem virkja reynsluheim nemenda í gegnum samskipti og samtöl. Þannig er stefnt að því að þau öðlist aukna tungumálavitund sem er mikilvæg í nútímasamfélagi.
Á vormisseri 2025 hófst leitin að tungumálunum, að kortleggja þau tungumál sem töluð eru af börnum og ungmennum í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins. Tilgangurinn er að vekja jákvæða umræðu um tungumál og fjöltyngi en að hafa fleiri en eitt tungumál á valdi sínu getur aukið lífsgæði og auðgað tilfinningalíf. Aukin tungumálavitund hvers og eins ýtir undir sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd og getur verið stuðningur við skólana í því mikilvæga verkefni að innleiða virkt fjöltyngi og efla tungumálakunnáttu allra nemenda.
Leitin að tungumálunum var unnin í samstarfi Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, MEMM – Menntun, móttaka, menning, Miðju máls og læsis, Móðurmáls – samtaka um tvítyngi, Menningarmótsverkefnisins og Samtaka tungumálakennara á Íslandi (STÍL). Áður voru tungumálin kortlögð í íslenskum leik- og grunnskólum á árunum 2014 og 2021.
© 2025 Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari, menningarmiðlari og verkefnisstýra Menningarmóts
© 2025 Myndhöfundar: Ýmsir
Ritstjórar: Harpa Pálmadóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir
Málfarslestur: Diljá Þorbjargardóttir
Hönnun og umbrot: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
Miðstöð menntunar og skólaþjónusta
Kópavogi
Öll réttindi áskilin