Lýsing
Skiptið nemendum í hópa. Hver hópur fær annaðhvort tölvu og mynd af heimskortinu til að fylla inn á eða prentað blað með heimskortinu á. Nemendur geta auk þess búið sjálf til stórt skrautlegt heimskort til að hengja upp í skólastofunni. Það er t.d. hægt að varpa upp útlínum heimskortsins á þykka og stóra pappírsörk og teikna upp eftir þeim.
Áður en vinna hefst er gott að láta skólastjórnendur og kennara vita að til stendur að safna saman þeim tungumálum sem töluð eru í skólanum og velja tíma til þess. Ræðið við nemendur um hversu mörg tungumál þau halda að nemendur í skólanum tali.
Nemendur kanna tungumálaforðann með því að gera talningu í hverjum bekk/hópi og gera síðan tungumálin sýnileg í rýminu á fjölbreyttan og skapandi hátt. Tungumálin eru skráð á verkefnablaðið.
Hér eru nokkur dæmi um hvernig má auka sýnileika tungumála í námsumhverfinu:
- Gerið skrautlegt og litríkt heimskort sem allir taka þátt í að búa til og setjið tungumálin á kortið þar sem þau eru töluð.
- Vinnið með niðurstöðurnar, t.d. með því að flokka tungumálin í tungumálaættir og búa til veggspjald fyrir hverja ætt.
- Útbúið töflu með súluriti þar sem tungumálin sem töluð eru í skólanum/bekknum eru flokkuð út frá fjölda þeirra sem tala þau. Setjið töfluna upp í skólastofunni.